ÓLI K

BROT ÚR SÖGU ÞJÓÐAR
14.11. – 20.02.2025

Ólafur K. Magnússon (1926-1997), yfirleitt kallaður Óli K. hefur stundum verið kallaður „ljósmyndari þjóðarinnar“ eða „sjónarvottur samtíðar“. Árið 1947 hóf hann störf á Morgunblaðinu og varð þar með fyrsti fastráðni ljósmyndarinn á dagblaði á Íslandi. Óli var þá 21 árs og nýkominn frá Bandaríkjunum þar sem hann lærði ljósmyndun í New York og kvikmyndagerð hjá Paramount Pictures í Los Angeles. 

Starfsævi hans spannaði um hálfa öld og á þeim tíma markaði hann sér sess sem mikilvægur þátttakandi á sviði íslenskrar menningar. Andartök og augnablik Íslandssögunnar urðu að sýnilegum minjum í ljósmyndum hans. Hann tók utan um andrúm og tilfinningar og gaf þeim form, gerði menn og konur að leikendum á sviði tímans – var staddur þar sem sagan gerðist.

Óli K. lagði sig fram við að skrá lífið í landinu á filmur sínar. Smátt og stórt, sorg og gleði. Hann myndaði meðal annars hörð átök lögreglu og mótmælenda á Austurvelli vegna inngöngu Íslands í Nató árið 1949 og áfanga og áföll í íslenskri útgerðar- og flugsögu. Óli K. myndaði marga þekktustu listamenn þjóðarinnar og heimsþekktar stórstjörnur eins og goðsögn jazzins, Louis Armstrong. Breyttir atvinnuhættir og nýr skali atvinnutækja og bygginga birtist einnig í myndasafni hans, tyllidagar og hversdagurinn líka. Þar eru meðal annars síldarstúlkur, nemendur í húsmæðrakennslufræði í kjallara Háskóla Íslands, konur í verkfalli og ungar ballerínur og fimleikakonur, sjómenn og sundkappar og karlarnir sem steyptu turn Hallgrímskirkju með aðferðum sem þættu ekki bjóðandi í dag.

Sýningin „Brot úr sögu þjóðar“ var sett upp á setustofunni á jarðhæð samhliða útgáfu bókarinnar „Óli K“ í Ásmundarsal þann 14. nóvember 2025 og er unnin í samstarfi við Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Í bókinni eru verk ljósmyndarans birt, bæði víðkunnar myndir sem óþekktar. Um leið er saga hans sögð ítarlegar en áður hefur verið gert: Uppvöxtur í Reykjavík í skugga sviplegs fráfalls föður hans, námsárin í Bandaríkjunum og síðan þrotlaust starf hans við að ljósmynda lífið í landinu.  

Bókin er skrifuð af Önnu Dröfn Ágústsdóttur sagnfræðingi og lektor við Listaháskóla Íslands. Hún skrifaði einnig vinsælu bækurnar Reykjavík sem ekki varð og Laugavegur í samstarfi við Guðna Valberg arkitekt. Kjartan Hreinsson sá um hönnun og umbrot og er einnig myndritstjóri bókarinnar ásamt Önnu Dröfn. Angústúra gefur bókina út og er hún fáanleg í öllum helstu verslunum.