Gamlar og nýjar perlur á Skólavörðuholti með Björtum Sveiflum
24. AUG 2019 - 17:00-19:00
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrsta skólavarðan leit dagsins ljós á Skólavörðuholti undir lok 18. aldar. Nú hafa margir af helstu og áhugaverðustu atburðum úr sögu Skólavörðuholtsins og Ásmundarsalar verið teknir saman í blaðinu Upp í hæstu hæðir þar sem sögunni eru gerð skil á myndrænan og skemmtilegan hátt. Í tilefni af útgáfu blaðsins mun hljómsveitin Bjartar Sveiflur stíga á stokk og spila lifandi tónlist. Hljómsveitin hefur getið sér gott orð að undanförnu fyrir hressilegar ábreiður af þekktum íslenskum lögum en gaman er að segja frá því að einn af meðlimum hljómsveitarinnar, Loji Höskuldsson er einnig einn af aðstandendum sýningarinnar Varðað sem stendur yfir um þessar mundir í Ásmundarsal. Verið hjartanlega velkomin í Ásmundarsal við Freyjugötu á Menningarnótt.