Elin Hansdóttir-42.jpg

ANNARSSTAÐAR

ELÍN HANSDÓTTIR

„Ég mæti borginni með líkama mínum; fótleggirnir mæla lengd bogaganganna og breidd torgsins; ómeðvitað varpar augnaráð mitt líkama mínum á framhlið dómkirkjunnar þar sem það reikar yfir úthöggvið yfirborð og útlínur, skynjar skorur og framskot; þyngd líkamans mætir gegnheilli dómkirkjuhurðinni, og höndin grípur um hurðarhúninn um leið og ég geng inn í svartholið handan hennar. Ég upplifi mig í borginni, og borgin þrífst vegna líkamlegrar reynslu minnar. Borgin og líkami minn dýpka og skilgreina hvort annað. Ég bý í borginni og borgin býr í mér.“ (The Eyes of the Skin, e. Juhani Pallasmaa)

Í stað þess að vinna með gríðarstóra innsetningu, líkt og Elín Hansdóttir iðulega gerir, færir hún að þessu sinni smáskalann í forgrunn inn í sögufræga sýningarsali Ásmundarsals.

Ásmundur Sveinsson, myndhöggvari, teiknaði húsið og byggði sjálfur, sem óneitanlega beinir sjónum að rýmunum sem einskonar skúlptúrum, enda er það sá þáttur sem Elín nýtir sem útgangspunkt að þessu sinni.

Í sýningunni leikur Elín með þau ólíku sjónarhorn sem skapast fyrir tilstilli tímans. Í smágerðum skúlptúrum af sýningarsölum leikur hún með þekkingu áhorfandans á rýmum Ásmundar, á þekktum almenningsrýmum sem lifað hafa með borgarbúum og íslenskum listheimi í áratugi. Þetta gerir hún með því að færa inn í salina módel af þeim sjálfum sem þó fela í sér hennar eigin skálduðu þætti sem eru meira í ætt við það sem hún sjálf hefur fengist við í gegnum tíðina í allt öðrum stærðarskala; bogagöng í aðalsalnum en einskonar hringiðu í Gryfjunni.

Í módelstærð eru þessi verk Elínar á mörkum þess að vera skissur að innsetningum því vitaskuld hefðu þau getað orðið að veruleika í upprunalegu rýmum Ásmundar. En sem skálduð módel eða miniatúrar, gefa þau áhorfandanum tækifæri til að skoða verk beggja myndlistarmannanna utan frá og endurskoða samband sitt við sköpunarferlið, sýningarrýmin og borgina umhverfis.