HLIÐ VÍTIS
LÓA HLÍN
HJÁLMTÝSDÓTTIR
18.07. - 13.08.23
Hlið Vítis II er fjögurra vikna gjörningur þar sem Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir mun umbreyta gömlum skáp í kunnuglegt meistarastykki eftir franska skúlptúristann Rodin. Fyrir verkefnið sankaði Lóa að sér fjöldann öllum af styttum úr Góða hirðinum sem hún kemur til með að endurmóta með leir.
Á meðan vinnustofudvölinni stendur mun hún jafnframt taka á móti styttu framlögum frá þeim sem eiga samskonar styttur heima hjá sér og vilja losa sig við sínar. Gestum er frjálst að fylgjast með framgangi vinnustofunnar með því að kíkja í heimsókn, en afraksturinn verður að lokum kynntur fimmtudaginn 10. ágúst.
„Þú ekur stefnulaust inn í nóttina. Augnlokin síga niður og lyftast upp eins og baujur í úfnum sjó. Þú ert ein. Allt líður áfram með sama hætti og draumur og þannig finnst þér að lífinu vindi fram, sama hvað þú reynir að ná tökum á því. Djöfull er dimmt, hugsarðu, og kveikir á háu ljósunum. Allt lýsist upp. Í hvítum geislunum birtist fígúra á miðjum veginum. Hún starir á þig. Þú munt keyra á hana, það er of seint að hemla. Þú munt senda hana inn um hlið vítis.
Auðvitað, hugsarðu. Ég er einmitt svona týpa sem veldur slysum.
Augnaráð fígúrunnar lýsir skelfingu. Á andliti hennar er svipur hinna dæmdu, svipur sem er alveg laus við þokka. Augun galopin. Engin augnlok. Hálfopinn munnur, efri vörin dregin upp, sólbrunnið nef. Hver dæmdi þessa manneskju til að þjást? Hvaða glæpi hefur hún framið? Hugsanaglæpi, meðal annars. Margar persónur Lóu Hjálmtýsdóttur eru að játa á sig skömmustulegar hugsanir. Ég nota stærðfræði eingöngu til að reikna aldursmun á frægum pörum. Manneskjan á veginum veldur sjálfri sér og fólkinu sínu stöðugum vonbrigðum. Af hverju erum við svona, mamma? Af hverju þurfum við að vera Euroshopper-fjölskylda? Af hverju erum við ekki almennilegt fólk?
Þegar þú nálgast manneskjuna á veginum færist skelfingarsvipurinn frá andliti hennar yfir á þitt. Þú berð kennsl á hana – þetta ert þú. Ljósið sem dæmir þig til dauða er æpandi birtan frá sjónvarpinu. Allar hallærislegu stytturnar ofan á skápnum horfa á þig horfa í ljósið á meðan líf þitt líður hjá. Nekt þeirra fær þig til að skammast þín. Hugsuðurinn er allt sem þú ert ekki. Það ert þú sem veldur slysunum í lífi þínu. En einmitt þegar áreksturinn verður, einmitt þegar þú stígur inn um hlið vítis, uppgötvarðu eitthvað nýtt.
Þú ert ekki lengur í myrkrinu. Þú ert ekki ein. Það eru fleiri en þú með þessar hugsanir. Þið hin dæmdu finnið huggun í faðmlagi, alveg eins og stytturnar af elskhugunum. Birtan umlykur ykkur. Hún varpar ljósi á hvað hið merkilega er ómerkilegt og hið ómerkilega er merkilegt. Hún afhjúpar hvað það er fyndið og fagurt að reyna að halda í einhverja reisn í þessu lífi.“
Texti: Jónas Reynir Gunnarsson
Lóa H. Hjálmtýsdóttir starfar sem myndasöguhöfundur, myndlistarmaður og rithöfundur. Myndasöguhliðarsjálfið heitir Lóaboratoríum og vinnur við að rannsaka mannlega hegðun án þess að komast að niðurstöðu. Frá árinu 2005 hefur Lóa sungið og samið tónlist með hljómsveitinni FM Belfast.
_
Verkefnið er styrkt af Myndstef.
GATES OF HELL II
LÓA HLÍN
HJÁLMTÝSDÓTTIR
18.07. - 13.08.23
Gates of Hell II is a four week studio performance by Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir where she will attempt to recreate a familiar masterpiece by the french sculptor Rodin using second hand furniture, decorative statues from fleamarkets and children’s clay.
Lóa H. Hjálmtýsdóttir works as a writer, artist and illustrator from Reykjavík. Her comics alterego is called Lóaboratoríum and researches human behavior without coming to a conclusion. Since 2005, Lóa’s been singing and writing music with her band FM Belfast.
_
The project is supported by Myndstef.