HÆGRA / VINSTRA
27. FEB 2021 - 05. APR 2021
EDDA JÓNSDÓTTIR
Laugardaginn 27. febrúar opnar sýningin HÆGRA / VINSTRA eftir Eddu Jónsdóttir í Ásmundarsal. Hún hefur fengið til sín einvala lið til að setja upp sýninguna en sýningarstjórar eru Auður Jörundsdóttir, Hildigunnur Birgisdóttir og Anna Júlía Friðbjörnsdóttir. Sýningin stendur til 4. apríl næstkomandi og er hliðstæða sýningarinnar VINSTRA / HÆGRA sem stendur yfir á kaffihúsinu Mokka á sama tímabili.
Edda hefur verið áhrifamikil í íslensku myndlistarlífi síðastliðin fjörutíu ár en þetta er fyrsta einkasýning hennar síðan 1994 eða frá því hún stofnaði I8 listagallerí.
Leirklessa lendir í manna höndum og úr verður fugl, nokkrum dögum síðar telur flokkurinn 127 fugla, sem stara í forundran á skapara sinn. Edda þjónar sköpunarþörfinni sem aldrei fyrr og hefur vart undan í framleiðslu á allt að því þráhyggjukenndum verkum sem unnin eru á pappír, úr leir eða postulíni. Óheft streymið þrýstir sér líka út um nýja óvænta farvegi sem kemur Eddu í opna skjöldu.
Áður en hún veit af keyrir hún um á hreinasta bíl Reykjavíkur, svo eftir verður tekið. Myndasafn sem sprettur úr sápulöðri lítur dagsins ljós. Eðlislæg forvitni Eddu hefur yfirstigið félagsleg höft og tekur völdin í hnýsinni myndaseríu. Fótatak utan við hús verður til þess að hún stekkur af stað með myndavélina og rammar inn nágranna sína með næmu auga í samstarfi við sólina. Myndirnar hanga í nágrenni við eldri grafíkverk Eddu á Mokka. Sú forvitna skoðar umhverfi sitt með opnum huga og er vakandi fyrir óvæntum augnablikum, teiknar tré í garðinum með vinstri hendinni, endurtekið og undrast fegurðina í ófullkominni speglun úr heilahvelunum. Forvitni er eiginleiki sem fólk missir oft á tíðum með árunum en svo er ekki í tilfelli Eddu Jónsdóttur. Hún er síáhugasöm um listina, mannfólkið og umhverfið en þessi forvitni verður að elixsír í ástandi sem best verður lýst sem frelsi og virðist aukast í veldisvexti eftir því sem tíminn líður. Frjáls eins og fuglinn leyfir listamaðurinn sér að fara sínar egin leiðir og gera athuganir, af því bara.
Undirritaðar stóðu frammi fyrir því verkefni að velja úr ógrynni verka Eddu sem hafa orðið til síðasta áratuginn, heilu flokkunum af gersemum sem óðs manns æði væri að gera skil. Fyrr en varði voru tvær sýningar óumflýjanlegar, í Ásmundarsal og á Mokka, sýningarstaðir sem hæfa verkunum einhvern veginn svo fullkomlega vel. Það eru ekki bara hin óvæntu og fallegu augnablik sem fönguð eru í verkunum sem heilla heldur er einhver óútskýranlegur kraftur og gleði hér að störfum sem ef til vill mætti kalla; þyngdarlögmálið á rangsnúningi.
Edda Jónsdóttir hefur verið áhrifamikil í íslensku myndlistarlífi síðastliðin fjörutíu ár. Strax eftir útskrift sína frá Myndlista- og handíðaskólanum vann Edda ötullega og sýndi víða. Verk hennar eru í eigu ýmissa safna s.s. Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Listasafns ASÍ og Hafnarborgar. Hún tók þátt í Gallerí Langbrók í félagi við hóp myndlistarkvenna. Árið 1995 stofnaði Edda i8 gallerí og starfaði þar með fjölda myndlistarmanna innlendum sem erlendum.
HÆGRA / VINSTRA - VINSTRA / HÆGRA eru fyrstu einkasýningar Eddu síðan 1994. Það er vel við hæfi að sýningin skiptist á milli sýningarstaðanna Ásmundarsals, þar sem Edda tók sín fyrstu skref í myndlistarnámi undir handleiðslu Hrings Jóhannssonar og Mokka þar sem ófá hitamál hafa verið rædd yfir kaffibolla.