Fullkomið Firðrúm
25. SEP 2021 - 10. OKT 2021
ANNA HRUND MÁSDÓTTIR, JÓHANNA ÁSGEIRSDÓTTIR & DANÍEL MAGNÚSSON
Villurnar vinda upp á sig sjálfsprottnar úr tóminu. Skekkjan getur af sér bil á milli hins beina og hins bogna, eins og mynstruð mygla eða algoriðmi sem gæti hringsólast út í óendanleikann, babelturn tæknialdarinnar. Samkvæmt ófullkomnunarsetning Gödels getur kerfi ekki lýst sér sjálfu, sagt þér hvort það haldi áfram eða hætti og þá hvenær.
Við teygðum úr okkur og komum okkur fyrir í hnitakerfi og fórum að elta óræðar tilfinningar fyrir einhverskonar samhengi hlutanna og þess óhlutbundna. Rúm er teygjanlegt yfirborð sem gefur eftir eins og svampur eða sykurpúði, en stundum brotnar það skyndilega eins og rúða. Handahófskennt en rökrétt. Hvers vegna leiðir svo margt óvænt af rökfræðinni? Sumt er hugsanlegt en ekki nauðsynlegt. Ekkert er sjálfsagt og dæmið gengur ekki alltaf upp. Ó, en þegar það gengur upp!
Sýningin er afrakstur úr vinnustofu teymisins Slembilukka sem stóð yfir í Gryfjunni 23. ágúst - 3. október.
Um sýnendur:
Jóhanna Ásgeirsdóttir (f. 1993) vinnur innsetningar, upplifanir og skúlptúra innblásna af raunvísindum og umhverfismálum. Hún lauk grunnnámi í myndlist frá New York University og meistaranámi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í og sýningarstýrt myndlistarsýningum á Íslandi, Berlín og New York. Hún starfar nú sem listrænn stjórnandi listahátíðarinnar List án landamæra.
Anna Hrund Másdóttir (f.1981) vinnur tilraunakennt og óútreiknanalega með efnivið sinn. Hún lauk BS námi í stærðfræði við Háskóla Íslands árið 2006 og BA námi í myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2010. Árið 2012 var hún nemi í listamannarekna skólanum The Mountain School of Arts í Los Angeles og útskrifaðist síðar með MFA gráðu við California Institute of the Arts. Verk hennar hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum, hérlendis og erlendis.
Daníel Magnússon (f. 1958) útskrifaðist úr Myndlista – og handíðaskóla Íslands árið 1987 og vakti þá strax athygli fyrir áhugaverð verk þar sem íslensk menning var oftar en ekki til umfjöllunar. Hann er einkum þekktur fyrir skúlptúra og ljósmyndaverk. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum bæði hérlendis og erlendis. Auk þess að starfa sem myndlistarmaður kennir Daníel stærðfræði á framhaldsskólastigi.
Complete Spaces
25. SEP 2021 - 10. OKT 2021
ANNA HRUND MÁSDÓTTIR, JÓHANNA ÁSGEIRSDÓTTIR & DANÍEL MAGNÚSSON
“Math doesn’t need to be visual to have a connection with how art works or how artists think. They are the same thing—both are having an interest in the world, looking at them closely, and trying to understand them.”
Anna Hrund, Daníel and Jóhanna are all working artists who use mathematics, among other things, as inspiration and material in their work. Four weeks prior to their exhibition they had an open lab or a workshop in Gryfjan, Ásmundarsalur, where they created all the works that are showcased in this exhibition. The lab was their temple of functions and quantities, where they made calculated drawings, conducted mathematical experiments, created geometric sculptures and even offered tutoring.